Lilypie 1st Birthday Ticker

föstudagur, 9. maí 2008

Marcello minnst í göngu gegn slysum.

Fimmtudaginn 8. maí var farinn ganga gegn slysum í annað sinn - var einnig í fyrra og hafði tekist vel þannig að ákveðið var að endurtaka leikinn í ár.
Nú var minnst allra þeirra sem látist höfðu í umferðarslysum árið 2007.
Tommi hafði heyrt um þetta í útvarpinu og það var ákveðið að drífa sig til að minnast Marcello sem hafði verið sá fyrsti sem dó í umferðarslysi á síðasta ári.
Kristófer fékk að halda á einni svartri blöðru sem var táknræn fyrir pabba hans.
Óhemjumargir tóku þátt og okkur þótti þetta mikilvæg ganga og dýrmæt stund.
Hérna fyrir neðan eru nokkrar myndir sem lýsa þessu vel - við vorum svo heppinn að veðrið var alveg dásamlegt sem gerði þetta ekki síðra.


Þetta var morgunsvipurinn sem mamman fékk í morgun. Hvað er hún Harpa Hua Zi að spekúlera ?

Varð að setja þessa mynd af litla englinum - hún býr alltaf til eitthvað nýtt á hverjum degi.
Þessi svipur er einungis einn af fjölmörgum sem hún lumar á til að skemmta okkur allan liðlangann daginn.
Henni finnst svo gaman að rífa af sér sokka og skó en það gengur ekki alveg eins vel með sokkabuxur.

Mamman með stóra stráknum sínum á leið í gönguna.


Kiki kominn niðrá slökkvistöð og slökkviliðsmennirnir með svörtu blöðrurnar - eina fyrir hvern látinn einstakling í umferðarslysi árið 2007. Það var auðvitað alveg sjálfsagt að Kiki fengi að hafa eina svarta blöðru.

Harpa fær að skoða blöðruna. Henni fannst hún mjög athyglisverð. Aldrei séð svona fyrirbæri ennþá skemmtilegra var síðan að fylgjast með þeim sveiflast í vindinum.

Harpa Hua Zi alltaf síkát og yndisleg eins og vanalega. Pabbinn þurfti þó aðeins að hafa fyrir henni því hún var alls ekki til í að vera í kerrunni allan tíman. Kannski svolítið okkur að kenna því að pabbinn vildi prufa aðra gerð af kerru sem Harpa hafði aldrei verið sett í áður (3 hjóla jogging kerra - flott græja úr góða hirðinum sem pabbanum langaði að prófa). Þetta er eitthvað sem maður lærir af - hún er mjög vanaföst þessi litla stúlka og sjálfsagt að virða það.

Er þetta sami svipurinn ???

Hérna eru rauðu blöðrurnar að koma að slökkviliðsstöðinni þar sem þær sameinuðust svörtu blöðrunum.

Hér erum við rétt kominn fram hjá Fossvogs kirkjugarðinum og fremri hlutinn af göngunni er kominn yfir brúna. Það var talið að um 4000 manns hefði tekið þátt í þessari göngu.

Það þurfti að bíða í 10 mínútur í viðbót eftir að ræðu heilbrigðisráðherra lauk því að flugturninn þurfti að gefa leyfi og beðið var meðan 2 vélar voru að lenda.
Þarna var slökkviliðsstjórinn með sínu fólki en einnig var lögreglustjórinn, fullt af hjúkrunarfræðingum, björgunarsveitarfólki, löggum, útfararþjónustu fólk og aðstandendum.
Mamman kannaðist við fullt af fólki bæði frá því að Marcello dó og svo eftir allar sjúkrahúsferðirnar í fyrra með Kíki og með ömmu Fríði.
Hjúkrunarfólkið af bráðadeildinni hafði búið til "bar" fyrir sódavatnið úr sjúkrarúmi og auk þess komið með einhver borð þaðan líka. Svo stóðu þau og framreiddu pylsur með sóma - sögðust ekki kunna það vel en væru æfðar í að vera alltaf til taks og viðbúnar. Það kæmi sér vel í mörgu öðru en hjúkrunarstörfum á bráðadeildinni.

Hér er verið að sleppa blöðrunum. Talið var niður frá 5. Í fyrra var klappað eftir að þeim hafði verið sleppt en núna var ákveðið að hafa þögn. Það var meira við hæfi fannst okkur.

Blöðrurnar stigu beint uppí himininn - það var lítill sem enginn vindur og fallegt að sjá þær svífa hærra og hærra. Kristófer vildi meina að blaðran hans væri kominn fyrst af þeim svörtu, það var auðvitað erfitt að segja til um en hefði verið vel við hæfi því Marcello var sá fyrsti sem dó árið 2007.

Fylgst með blöðrunum í þögn og með virðingu. Slökkviliðsmennirnir vildu hafa Kristófer hjá sér - mikið var það dýrmætt og tillitssamt af þeim.

Á meðan pabbinn fór í rútunni til baka til að ná í bílinn þá fengum við okkur ís sem Hörpu þótti ekki leiðinlegt. Ætli hún verði einhver sælgætisgrís ? Pabbinn var búin að gefa henni Kit Kat súkkulaði sem rann lika ljúft niður. Það er aldeilis ekki verið að ala barnið á sætindum en þessar veitingar voru nú í boði fyrir ALLA (þó að maður sé smár) þannig að það er allt í lagi á sérstökum degi.
Mömmunni var orðið ansi kalt þarna undir lokin enda komið að kveldi, brosið næstum fraus svona ! Auðvitað ekki gáfulegt að vera borða ís þegar manni er kalt !

Engin ummæli:

Þátttakendur