Lilypie 1st Birthday Ticker

föstudagur, 2. maí 2008

11. mánaða afmæli Hörpu Hua Zi

Það er alltaf stutt í brosið og góða skapið hjá þessari litlu stúlku.

Í dag á Harpa Hua Zi 11. mánaða afmæli. Hún tók því með mestri ró og lét það ekki rugla neitt rútínunni hjá sér. Svaf næstum 14 tíma í nótt og tók sér svo góðan 2 og hálfs tíma lúr í eftirmiðdaginn. Það var ákkúrat þegar vinkona okkar hún Ásta Hrönn kom í heimsókn - færandi hendi með veitingar eins og hennar er von og vísa. Þó gat hún aðeins dáðst að litla skottinu þegar hún vaknaði loksins. Þá prufaði hún að gefa henni bita af Brie og kom Hörpu strax á bragðið með það - já henni Ástu Hrönn tekst alltaf að bjóða upp á eitthvað nýtt fyrir bragðlaukana - jafnt hjá ungum sem öldnum. Síðast þegar hún kom var hún með ostaköku sem Harpa varð samstundis mjög hrifinn af. Það er nú svo þægilegt með þetta barn að það virðist flest fara ofaní hana - nema sveskju, epla og peru mauk. Kannski finnst henni það bara allt of barnalegur matur - hún er vön því að fá bara alvörumat - tófú - hrísgrjón með sojasósu - ávaxtabita og ég veit ekki hvað og hvað. Amma Fríður var líka að koma og fara nokkrum sinnum hún er búin að vera svo frábær í skutlinu fyrir okkur. Fyrst fór hún með 3. og síðasta saursýnið hennar Hörpu á Barnaspítalann, svo fór hún með pappíra niðrí ÍÆ og svo að lokum fór hún með Kiki á "Break" æfingu. Harpa Hua Zi er nefnilega ekkert allt of ánægð að vera lengi í bílstólnum þannig að henni er hlíft við því. Ef það þarf nauðsynlega að fara með hana eitthvað þá hefur amma Fríður verið "driverinn" og ég hef ofan af fyrir henni afturí með því að leika við Pönduna sem henni þykir svo skemmtileg eða gefa henni bita af brauði eða rúsinur.


Þennan myndaramma setti mamman uppí dag af tilefni afmælisins. Það var sko erfitt að velja einungis 5 myndir í rammann - það eru nefnilega til svo óhemjumargar fallegar myndir af þessari stúlku. En áður en endanlega ákvörðunin var tekin voru prentaðar þónokkuð fleiri myndir en gátu komist í rammann. Það verður svo bara að skipta út myndum til að sýna sem flestar - þær sem hafa verið notaðar fara svo í skrapp albúmin sem mamman ætlar að vera dugleg að gera.



Mamman knúsaði litlu afmælisstelpuna sína til hamingju með 11 mánuðina. Þetta var frekar rólegur dagur - ætli það verði ekki dáldið meira fjör eftir mánuð þegar maður verður eins árs ?



Stóri bróðir óskaði líka afmælisbarninu til hamingju - hún hafði þó meiri áhuga á að fá eitthvað að borða heldur en að sitja fyrir í myndatöku.

Það var nú algjör tilviljun að systkinin voru í sama lit !

Þið ráðið hvort þið trúið mér eða ekki - ég er ekki alltaf að stílisera !



Svona vildi hún vera dágóða stund eftir að hún vaknaði eftir næstum 14 tíma svefn. Ég tók hana ekki upp fyrr enn um 11.30 - var orðin nokkuð óróleg þegar ekkert heyrðist í henni allan morguninn. En hún þurfti greinilega að sofa svona obboðslega lengi ! Hva ! Maður kippir sér ekkert upp við það þó að það sé 11 mánaða afmælisdagur.




Hér er maður svolítið vonsvikin afþví að fóturinn er fyrir mér. Mamman náði ekki mynd afþví þegar hún rétt áður náði að færa fótinn aftur og fór á 4 fætur. Já þetta kemur allt með kalda vatninu. Aðrar framfarir eru svo miklar t.d. stendur hún núna auðveldlega upp í rúminu sínu og gengur með hálfan hringinn. Verst er þó að koma sér aftur niður - stundum pompar maður bara ofaní rúmið.


Mér er það tamast að vera í bakkgírnum en finnst það ógurlega pirrandi þegar ég kemst ekki lönd né strönd. Þá er ekkert annað í stöðunni að kalla nógu hátt á mömmu til að láta bjarga sér úr klípunni.


Thjaaa ! Já ég verð að viðurkenna að ég er svolítið að skrifa í frítíma mínum. Fæ þá tölvuna hennar mömmu að láni. Mér gengur best þegar ég fæ algjöran frið - þá kemur andinn yfir mig og ég verð alveg óstöðvandi.


Auðvitað skrifa ég dulmál - hvað ættuð þið svo sem að skilja ungbarnablogg !



OK mamma ertu reddí að taka myndir af hvað ég er dugleg ?



Það voru sýndir smá taktar - stigið til hliðar og sleppt annarri hendinni. Maður er svooooo mikill gaur !



Auðvitað reyni ég hvað ég get - er ekki hægt að komast hærra ?
Það sést ekki nógu vel svipurinn á henni þarna en það er alveg óborganlegt að sjá þegar hún er einbeitt þá bítur hún litlu 2 tönnunum sínum utan yfir efri vörina.

Hér er verið að klappa saman lófunum ! Stundum er tekið allt "showið" klappað, sýnt hvað ég er stór, sagt AHHHH með miklum áherslum þegar búið er að súpa af pelanum eða málinu - sem hún er orðin ansi dugleg að nota. Sveiflað höndunum og dinglað fótunum. Svo þarf ég að sýna báðar tennurnar mínar í neðri góm og bý til allskonar blísturs og soghljóð. Hljóðin hafa tekin nokkrum breytingum og virðast vera misvinsæl, einn daginn er það goj goj, næsta gæj gæj og í dag var ga ga vinsælast. Það er víst óhætt að segja að það sé alltaf líf og fjör á matmálstímum hér á Snekkjó.


Það er borðað í miklum rólegheitum og stundum hlustum við á fallegu kínversku tónlistina sem var keypt í Kína. Harpa hefur nú þegar ákveðin tónlistarsmekk og þegar lagið hennar kemur þá tekur hún strax eftir því og fer öll á ið. Svo finnst henni svo dæmalaust fyndið þegar mamman tekur undir og dillar sér með laginu.


Bjartur er alltaf að vonast til að Harpa láti falla niður á gólf eitthvað af þessum fína mat sem hún fær. Henni finnst hann alveg rosalega spennandi, þarna rétt áður var hann búin að þefa af táslunum hennar og sleikja þær. Líklega að reyna að kitla hana til að eitthvað myndi falla niður til hans !


Bíddu nú við - hvaða skepna er þetta ???

Fíll ! Eiga þeir að vera gulir ?

Hvernig var þetta nú aftur í Kína ?

Mér finnst gaman að "lesa" bækur og geri það mjög fullorðinslega - ég lærði það í House of Grace hjá Söndru King og Ying fóstrunni minni.

Maður er alltaf að verða duglegri og duglegri að fara í bað og finnst það líka oft spennandi. En það var alls ekki spennandi í byrjun ekki frekar en að láta skipta á sér.



Nú gaf ég í skyn að það væri komið nóg af baðtíma - get ég ekki staðið upp sjálf með því að grípa í hér ?


Nú auðvitað verður maður að samþykkja hvað er verið að setja mann í - OK mamma þetta er í lagi. Best að nota þessi föt sem mest áður en þau verða of lítil. Maður stækkar svo hratt !



Nú er hárið orðið það sítt að mamman getur greitt aðeins til hliðar.

Reyndi að setja spennu um daginn en hún vildi alls ekki tolla í -

það verður enn að bíða eftir meiri hári.

Hörpu fannst frekar skrítið að það væri verið að greiða henni, dokaði við í stuttan tíma en vildi svo endilega fá að skoða þessa furðulegu græju.


Já svona var þessi afmælisdagur - ósköp venjulegur en samt svo viðburðaríkur.

Engin ummæli:

Þátttakendur