Lilypie 1st Birthday Ticker

sunnudagur, 11. maí 2008

Fjölskyldan á Snekkjó

Nú er að líða 4 vikan frá því að Harpa Hua Zi kom frá Kína og tengslamyndunin gengur vel. Harpa tekur fólki ekki alltaf strax og það er gott en þeir sem hún sér reglulega og treystir orðið gefur hún mikið af sér og er sífellt að sýna á sér nýjar hliðar. Þetta er mikill tilfinninga rússibani og líklega fáir eða enginn annar en þeir sem hafa upplifað það sama skilja hvað er að gerast á svona stundum. Oft hafði maður heyrt reynslusögur fólks sem hafði verið í þessum sporum hversu magnað þetta væri og líka erfitt og það sem okkur þótti alltaf merkilegast var að þegar fólk fullyrti að það væri sko síður en svo minni tilfinningar sem bærðust með manni þegar maður eignaðist ættleitt barn heldur en sín "eigin".
Fyrir mér var þetta kannski yfirþyrmandi gleðilegt og of gott til að vera satt ! Þannig að í byrjun þegar heim var komið og raunveruleikinn tók við þ.e. loksins komin mannvera í herbergið sem næstum var búið að standa klárt og autt í heilt ár og margt annað löngu löngu tilbúið þá vissi ég varla hvernig ætti að höndla þær tilfinningar.
Satt best að segja var það ekki auðvelt - ekki svo að skilja að ég sé að barma mér - nei aldeilis ekki - þetta varð bara að gífurlegu spennufalli eftir að hafa beðið í langan tíma í ættleiðingar biðröðinni og þar áður í reynt að eignast barn í mörg mörg ár.
Ég vona bara að ég geti einhverntíma miðlað þessari reynslu og verið kannski einhverjum öðrum til staðar og til styrkingar - því nú veit ég svo sannarlega ALLT um barnleysis ferlið !
Ég veit ekki hvort hægt sé að fá "fæðingarþunglyndi" eftir að hafa ættleitt ? En á tímabili velti ég því fyrir mér hvort eitthvað slíkt væri að hrjá mig - hvernig gat það samt verið, með þetta yndislega fullkomna barn ?
Mjög mikilvægt var að finna fyrir skilning og stuðning - þar var nú mamma mín sem á mikið hrós skilið fyrir að vera til staðar þegar ég þurfti á henni að halda en þess á milli hélt sér meðvitað til hlés
.
Myndirnar hér fyrir neðan sýna glögglega hvernig samskipti okkar eru við Hörpu og hversu vel hún skoðar okkur og er athugul. Auðvitað tekur það litla manneskju dáldin tíma að kynnast svona sérstakri fjölskyldu - svo vægt sé til orða tekið !
.
HARPA HUA ZI MEÐ MÖMMU SINNI
Hm ! Þarna er hún eitthvað að velta mér fyrir sér - ég var að koma úr vinnunni og var frekar dökkklæddari en ég er vanalega heima. Líklega hefur hún þurft að venjast því - allavegana gefur svipurinn eitthvað í þá áttina til kynna.

Harpa skoðar orðið gaumgæfilega hvernig mamman greiðir sér eða klæðir sig. Það er alveg greinilegt að hún bregst mismunandi við mér eftir litum og útliti. Um daginn þegar við fórum út að labba setti ég græna derloðhúfu á mig og þegar ég ætlaði að fara taka hana var hún skelfingu lostin. Það þýddi ekkert annað en að taka af sér húfuna. En eftir að hún hafði fengið að skoða hana sjálf - sagði m.a. ksss ksss sama og þegar við erum að tala við Bjart kisuna okkar þá varð hún sátt við húfuna og ég mátti setja hana á mig. Hún er alls ekki hrifinn af einhverju sem er mikið loðið eða hárugt þessi stelpa.

Já stundum finnst mér betra að taka gleraugun af henni mömmu. Þannig er líka miklu betra að knúsast.

HARPA HUA ZI MEÐ PABBA SÍNUM
.
Harpa að spá í kallinn hann pabba sinn ! Þó hún hafi ekki séð hann eins mikið og mömmuna sýnir hún honum samt greinilega hversu hrifinn hún er af honum. Það er alltaf fjör hjá pabba og hann er sko alltaf meira en til í að leika við mig.

Harpa skilur nú stundum ekkert í honum pabba sínum ! Hvaða svipur er þetta ?
Hann var að benda mér á mömmu sem var að taka mynd og segja mér að brosa ! Það dugði bara ekki til - það er eitthvað annað sem fær mig til þess.

Hm ! Já núna brosir hann eðlilega - mikið betra. Maður tekur nú heldur betur eftir því hvernig fólk hagar sér í kringum mann og spekúlerar helling í fólkinu.
.
HARPA HUA ZI MEÐ STÓRA BRÓÐUR SÍNUM

Það eru allskonar æfingar gerðar saman með stóra bróður og alltaf jafn gaman. Kristófer er þó mjög upptekinn í unglingaheimum - það er svo margt sem þarf að sinna þar þannig að stundum er ekki mikill tími í að vera stóri bróðir.

Þeim finnst ekki leiðinlegt að leika sér saman - eins og sést !
Mjög margir segja að þau séu glettilega lík. Mömmunni finnst það alveg ótrúlega magnað að börn sem eru frá sitthvorri heimsálfunni geti verið svona lík - ekki bara í útliti heldur líka sem persónuleikar. Bæði svona geðgóð og glöð - alltaf brosandi ! Já það skiptir ekki litlu máli að hafa gott skap og getað brosað ! Svo eru þau bæði félagsverur sem finnst gaman að vera innan um fólk og eiga auðvelt með það. Þar að auki virkilega myndarlegir krakkar. Það er ekki annað hægt en að þakka almættinu fyrir þessi yndislegu börn.

Systkinin hafa náð vel saman og hafa sinn tjáningarmáta sín á milli. Harpa hefur allt annað samskipta form við Kristófer heldur en við foreldra sína. Það er reyndar svo oft þannig að börn eru hrifnari af öðrum börnum.
Þó eru foreldrarnir alltaf bestir ef eitthvað bjátar á eða maður vill fá mat eða umhyggju.

Engin ummæli:

Þátttakendur