Þessi dagur var enn og aftur dagur stórra sigra, sigrarnir hingað til hafa verið stórkostlegir hjá okkar litlu manneskju. Hún er fullkomlega búin að koma til okkar og segja okkur með látbragði sínu, svipbrigðum og trausti að við erum hennar akkeri í lifins ólgusjó, þrátt fyrir okkar stuttu kynni í klst. talið. Ef einhver er með hana, hvort sem er kínverskt ungmenni eða eldri, stúlka eða drengur, eða annað fólk, þá er það við sem hún vill vera hjá. Sem betur fer fyrir okkur gildir þetta algerlega jafnt um okkur bæði.
Engu máli virðist skipta þó að talað sé blítt til hennar á því tungumáli sem hún hefur heyrt frá fæðingu. Hún farin að treysta okkur foreldum sínum algerlega, þrátt fyrir það óskiljanlega tungumál sem við tölum í hennar eyru, ennþá. Núna er traustið algerlga á réttum stað og fyrir það erum við óendanlega þakklát. Við vissum ekki alveg fyrsta morguninn hvort hún myndi hrökkva upp af værum blundi og ekki muna alveg hvar hún væri og hvaða fólk væri í kringum hana, en sá ótti reynist mð öllu áhyggjulaus. Hún vaknar sem dóttir okkar, sem leitar strax að okkur og er fullkomlega ánægð með þá þjónustu og þá væntumþykju sem hún fær. Við öll þrjú erum nú, þegar á öðrum sólarhring okkar samveru komin á þann stað sem við foreldrarnir þráðum, en vorum kannski ekki alveg viss um að myndu rætast svona fljótt, og það er alveg ómetanlegt. Nú kynnu sumir að halda að við séum kannski aðeins of fljót á okkur að fagna. Staðreyndin er hins vegar alveg öruglega sú, eins og fóstrur Hörpu sögðu, að stúlkan sé sérstaklega vel vakandi yfir öllu umhverfi sínu, átti sig mjög vel á öllu sem gerist í kringum sig og þar með átti hún sig mjög vel á þeirri stöðu sem hún er í í dag. Áfallið sem það er börnunum að flytja frá sínum rótgróna samanstað, sem er barnaheimilið allt í einu og vera síðan komin í fangið á allt öðru fólki skömmu síðar er mikið. Með hennar uppleggi og vegarnesti út í lífið, staðfest af fóstrunum hennar báðum, þá sýnist okkur hún hafa nýtt sér sína meðfæddu hæfileika og andlegan styrk til þess að takast á þær breytingar sem henni hefur verið boðið upp á hingað til. Þær breytingar munu síðan halda áfram með langri heimferð, glænýju umhverfi og veðurfari og fullt af vingjarnlegum nýjum andlitum til þess að kynnast. Við kvíðum þessu ekki, vegna þess hvernig hún tók okkur og hvernig hún vinnur úr aðstæðum sem upp koma og tekur með opnu hjarta og opnum huga á móti þeim sem vill henni vel og sýnir hennir það strax.
Heimsóknin á gamla barnaheimilið, sem hefur verið höfuðskjól Hörpu frá því 5 dögum eftir fæðingu, veldur okkur engum kvíða og hún mun fá að fara í fang allra sem hún vill fara til, því við vitum hvar hugur og traust litlu stúlkunnar okkar liggur í dag.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli