Lilypie 1st Birthday Ticker

þriðjudagur, 29. apríl 2008

Fyrstu myndirnar af Hörpu Hua Zi


Þetta er dúkka sem mamman pantaði á Netinu eftir að hafa séð fyrstu myndirnar af Stubbalínu. Fannst hún svo lík henni og þar að auki létt og mjúk. Hún kom til landsins rétt áður en við lögðum af stað til Kína og var því samferða okkur í stóra ferðalagið til að ná í Hörpu Hua Zi. En það var ekki fyrr en við komum tilbaka til Íslands að dúkkan sem er kölluð Vá va (þýðir dúkka á kínversku) varð vinsæl, nú er hún með fastan sess í rúminu hennar og henni er tuskað fram og til baka meðan sinfóníur í hjali eru teknar í góðum fíling á morgnana.




15. febrúar 2008 fengum við fyrst að sjá myndir af litlu stelpunni okkar - sem hingað til hafði verið kölluð Stubbalína. Með myndunum fylgdu læknisfræðilegar upplýsingar sem Gestur Pálsson læknir var búin að fara yfir (Astrid frænka talaði við hann og spurði hvort ekki væri hægt að hraða þessu eins og mögulegt væri !)
Einnig kom fram í pappírunum hvar hún hefði fundist og hvenær 7. júní 2007. Fæðingardagur hennar er jafnframt áætlaður hafa verið nokkrum dögum áður þ.e. 2. júní. Auk þess kom lýsing á hennar persónuleika og hegðun - sem mér finnst í dag vera alveg einkennandi fyrir hana.
Reglum samkvæmt mátti samt ekki gera myndirnar opinberar - því í sjálfu sér var hún enn ekki orðin okkar barn.
Við gátum þó sent myndir í tölvupósti til stærstu systir í Danmörku en flestir aðrir komu í heimsókn eða fengu að sjá myndirnar í albúmum eða möppum. Mamman prentaði endalaust út myndirnar 3 í allskonar stærðum og gerðum - allt það sem prentarinn bauð uppá ! Lit, seppia, svart/hvítt með ramma og svofrv.
Það hafði líklega mátt veggfóðra heilt herbergi með þeim myndum sem prentaðar voru út af litlu stelpunni sem vann strax hug og hjarta manns um leið og litið var á myndirnar af henni.


Því miður varð ein myndin af henni þar sem hún er 3 mán. alltaf svo lítil hér á blogginu þannig að ég sleppti henni alveg.







Hér er stelpan líklega ca. 6 mánaða gömul. Okkur fannst hún vera með grallarsvip og kankvís. Auðvitað einnig óhemjufögur með stórkostlega falleg augu sem segja svo margt.


Þegar við hittum Söndru King sagði hún okkur að þessi peysa hafi verið prjónuð að frænku í Ástralíu - jáhá heimurinn tengist ótrúlega !


Við vorum svo ánægð að bakgrunnurinn var frekar látlaus svo sá ég þennan stól í House of Grace og tók þá mynd af honum.


Það sérstaka við þessa mynd er að hún kveikti á einhverri peru hjá mömmunni og varð til þess að rótað var í gegnum gömlu myndirnar af Kristófer - þá kom í ljós að það er til næstum nákvæmlega eins mynd af honum á svipuðum aldri ! Þar að auki eru þau sláandi lík - er það tilviljun að hann var alltaf kallaður Chinesino ( þýðir litli Kínverjinn) á Ítalíu þegar hann var lítill ?




Hér er mín dugleg að sitja á bíl.





Mamman fyrir utan íslenska ættleiðingu rétt áður en við sjáum myndirnar. Frekar nervös !




Hér er Guðrún í ÍÆ að rétta okkur myndirnar !





Mamman gat bara ekki haldið tárunum inni - auðvitað gleðitár !


Brosið festist á pabbanum alveg heillengi - það fer honum líka svo vel !




Hér eru elskulegu konurnar í ÍÆ Guðrún og Fanney.








Heima í Snekkjó biðu amma Dúdú, Steina frænka, Kiki og amma Fríður.


Þeim fannst það dragast heldur á langinn að við skiluðum okkur heim en voru fljót að gleyma því þegar þau sáu myndirnar af skottinu.





Við buðum Auði - frænku pabbans að koma og sjá myndirnar. Hún var svo elskuleg að samþykkja að vera guðmóðir/skírnarvottur. Þarna eru líka ömmurnar.









Þennan litla strút keypti mamman í IKEA 2. júní 2007 ásamt mubblum í herbergið hennar Stubbalínu. Þetta er dagurinn sem er áætlað að hún hafi fæðst.






Myndin var prentuð út á A4 - ekki hægt að prenta út stærra nema líma saman !!!


Henni var svo stillt útí stofuglugga - þannig var hún alltaf nálæg okkur.


Þarna við hliðina er fallegur blómavöndur sem Dagný vinkona okkar kom með þegar hún kom til að sjá myndirnar af Stubbalinu.




Svo fórum við í heimsókn til Astrid frænku mömmunar til að spyrja hvort hún vildi vera guðmóðir/skírnarvottur fyrir litlu stelpuna okkar. Við vorum næstum því viss um að hún myndi segja já og prentuðum út flotta stóra mynd af barninu til að heilla hana sem mest.


Á myndinni er líka Ari frændi sem er greinilega stoltur af litlu frænku sinni.

Forsaga Hörpu Hua Zi í House of Grace

Í dag er hálfur mánuður frá því við komum heim til Íslands. Harpa Hua Zi braggast vel og tekur framförum á hverjum degi. Þvílík guðsblessun þetta barn og eins og maður segir vel af guði gerð. En að sjálfsögðu eiga konurnar sem hugsuðu um hana fyrstu 10 mánuðina í lífi hennar hrós skilið, fóstran hennar hún mrs. Ying og Nai Nai (sem þýðir amma á kínversku) hún Sandra King Nýsjálenska konan sem tók sig upp eftir að hafa komið börnum sínum á legg og fór til Kína til að sjá um munaðarlaus börn. Þar rekur hún núna heimili sem hún kallar House of Grace og er algjörlega háð velviljuðu fólki sem leggur henni lið og peninga í reksturinn. Harpa væri engan veginn svona vel á sig kominn og dugleg ef hún hefði ekki verið svona heppinn að fá að dvelja hjá Nai Nai ! Því þótti mömmunni svo óhemju leiðinlegt að frétta í dag að Sandra hefði verið lögð á spítala og væri að fara í uppskurð - líklega botnlanginn. Við skulum bara vona að það sé ekkert alvarlegra að og að hún nái sér fljótt aftur. Það má enginn við að missa svona konu hvorki litlu börnin á heimilinu hennar eða við hin sem höfum kynnst þessari stórkostlegu manneskju !

Vegna þessara frétta langar mig að sýna nokkrar myndir frá heimilinu hennar og svo í lokin 2 myndir frá hefðbundnu barnaheimili.

Ef einhver vill leggja henni lið eða senda pakka með fötum eða dóti þá hafið samband við mig - ég er með heimilisfangið hennar - skrifað á kínversku - sem þyrfti að prenta út. Ráðlegg nefnilega engum að reyna að skrifa táknin - það er alls ekki auðvelt - svona í byrjun allavegana !




Þessi mynd var tekin daginn sem við fórum og heimsóttum barnaheimilið. Þá bauð Mrs. Yu sem er forstöðukona hefðbundna barnaheimilisins (konan í gráu peysunni) okkur íslendingunum að borða á eftir og þá kom amerísk fjölskylda (dæturnar 2 til hægri) til að kveðja. Þau höfðu verið í heimsókn í nokkra daga.
Konan í rósóttu skyrtunni er Sandra King og við hliðina á henni stendur Ruth dóttir hennar sem hún ættleiddi sjálf. Ruth var oft að hjálpa mömmu sinni í House of Grace og var að leika við litlu stelpurnar. Nú svo ef vel er að gáð er mamman einnig á myndinni - lengst til vinstri.

Hér er Sandar King og dóttir hennar Ruth hjá nokkrum af eldri börnum hennar. Litli albínóinn hefur nú verið ættleiddur til USA til fjölskyldu sem hefur áður ættleitt albínóa frá Kína. Ég sá einn daginn úti á götu í Kína ungan mann sem var albínói - það var mjög sérstakt. En hann var flottur í tauinu og greinilega þokkalega efnaður. Hann virtist samt ekki vekja neina sérstaka athygli í allri mannmergðinni. Það þarf líklega meira til !


Hér er kunningja fjölskylda okkar sem við kynntumst á White Swan hótelinu. Þau höfðu fengið dóttur sína nokkrum dögum undan okkar og höfðu einnig farið að heimsækja House of Grace.
Svo skemmtilega vildi til að dóttir þeirra er ein af 4 stelpunum sem voru í sólarherberginu. Þau standa við rúmið hennar undir sólinni á
veggnum - ATH ! Sandra bauðst til þess að setja myndir af foreldrunum á vegginn fyrir ofan rúmið um leið og vitað var hverjir þeir yrðu. Þannig var litlu stúlkunni sýndar myndirnar og sagt að þetta væru Ma Ma og Ba Ba.
Okkur stóð þetta líka til boða en þorðum ekki að taka neina áhættu með að brjóta reglur kínverjana sem undir flestum tilfellum vilja ekki að foreldrar hafi samband við heimilinn.
Hinum megin í herberginu - ská á móti var svo Harpa Hua Zi og við hliðina á henni hún Þorbjörg Anna.
Það er ekki nema von að Harpa sé sterk í fótunum eftir að hafa hoppað í svona rólu.


Fóstrunum hafði verið gefin svona bolur til að vera í.



Þessa mynd tók ameríska fjölskyldan í House of
Grace sama morgun og við komum í heimsókn. Þarna sést fóstran hennar Hörpu hún Ying sitjandi á sófanum með 2 lítil börn.
Stelpurnar okkar voru víst þær fyrstu sem hún var að láta frá sér og það var svo greinilega erfitt fyrir hana þegar við komum, samt var hún afskaplega þakklát og ánægð að sjá Hörpu aftur.
Sandra skrifaði mér síðar að Ying hefði fengið 2 vikna frí sem henni fyndist alveg æðislegt - það er ekki mörg löng frí sem kínverjarnir fá.

Þessa mynd tók hins vegar hún Jennifer kunningjakona okar þegar hún fór að heimsækja House of Grace. Þarna er Harpa litla Hua Zi í fanginu á henni Ying - í svona líka fallegum rósóttum galla.


Þetta er yndisleg mynd ! Allar "sólarstelpurnar" sitja og lesa, fremst er Þorbjörg Anna, síðan Jasmine dóttir Jennifer, næsta veit ég því miður enginn deili á en síðasta stelpan er Harpa Hua Zi - stelpan okkar.


Önnur lestrar mynd - það vill nú svo skemmtilega til að ég var búin að panta þessa bók sem Harpa er með á Netinu ! Þannig að hún er til hérna heima - veit nú ekki hvort hún kannast við hana ???


Sólarstelpurnar 4 komnar allar saman í eitt rúm. Eina sem er alls ekki sátt við það er dóttir mín hún Harpa Hua Zi. Já ætli hún hafi það ekki frá mömmu sinni að það er lang best að vera í sínu rúmi ?



Þarna er Jennifer með Jasmine dóttur sína að heilsa upp á fóstruna Ying sem heldur á Þorbjörgu Önnu á hægri handlegg og Hörpu Hua Zi á vinsstri handlegg. Jahérna hér sú hlýtur að vera með sterkar hendur ! Því þegar Harpa fer að síga í öðru megin finnst mér voða gott að svissa yfir á hinn handlegginn.




Þessar tvær síðustu myndir á þessu bloggi eru frá hefðbundnu barnaheimili - sem er vissulega mjög snyrtilegt en greinilega "kaldari" stemning.





Hér hlýtur nú að vera mikið fjör - líklega skrafað eins og í heita pottinum á Íslandi.

laugardagur, 26. apríl 2008

Undurfögur og geðprúð Harpa Hua Zi











Mamman hefur verið óskaplega þreytt og held satt best að segja að meira að segja eitthvað lasin. Þessvegna hefur ekki verið nein umfram orka tilstaðar til þess að blogga og segja frá fyrstu dögum hennar Hörpu Hua Zi á Íslandi.
Þeir sem vilja samt fá myndirnar beint í æð get ég vísað á þessa slóð:
http://www.flickr.com/photos/hrannsa/
To all our friends in China and abroad - I have been very tired and haven´t had energy to put anything on the blog but if you would like to look at the newest picture´s please feel free to go to the site of flickr - written here above. Soon I will start to put some more pictures of my beautiful little daughter. Until then best wishes.


Ég fer nú að skríða saman vonandi fljótlega og þá mun ég halda áfram að blogga um þessa yndislegu manneskju dóttur mína hana Hörpu Hua Zi sem mömmunni finnst vera sætasta stelpan í öllum heiminum.

miðvikudagur, 16. apríl 2008

KOMIN HEIM, LOKSINS, LOKSINS, LOKSINS !!!

Allir okkar frábæru vinir, ættingjar, ættleiðingarfjölskyldur og aðrir góðir gestir á Kínastelpusíðunni. Til ykkar allra viljum við senda okkar innilegustu ástar- og þakklætiskveðjur fyrir öll skeytin ykkar. Þau ylja okkur svo sannarlega um hjartaræturnar, þegar heim kom. Við erum núna komin úr KínaVEFmúrnum, við lentum í töluverðum vandræðum á hótelinu í Beijing, með að ná góðu sambandi við síðuna okkar, á þann hátt að mögulegt væri að vinna með myndirnar okkar á þokkalegan hátt. Við ákváðum því að láta þetta ekki spilla gleðinni og sinna því betur litlu fjölskyldunni, ferðafélögunum í hópi 17 og síðast en ekki síst öllum þeim frábæru kínverjum sem við hittum alls staðar.
Þetta 5 daga blogghlé er bara lognið á undan storminum, núna hefjumst við aftur handa, þar sem frá var horfið.

ps. Áður en 10.000asta fléttingin á sér stað á síðunni ætlum við að gera ferðinni okkar frábæru skil, í bæði máli, og ekki síst myndum.

Þátttakendur